144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ef maður er ósáttur við fundarstjórn forseta, hvar annars staðar á maður að tala um það en undir liðnum um fundarstjórn forseta? Mér finnst stjórnarliðar hér inni, hv. þingmenn, loka eyrunum fyrir því og gera fulllítið úr því að hér er mjög stór hópur þingmanna, og ég er í þeim hópi, sem er mjög ósáttur við fundarstjórnina og það hvernig hæstv. forseti hefur farið með dagskrárvald sitt. Hæstv. forseti er nánast einráður um dagskrána hér, ef hann vill haga málum þannig þá ræður hann því. Mér finnst mjög mikilvægt að hæstv. forseti fái aðhald við þetta vald sitt. Mér finnst hæstv. forseti hafa misbeitt valdinu með því að setja algjörlega án samráðs á dagskrá mál sem er mjög mikið hitamál í þingsal, á meðan kjaradeilur geisa í landinu og svo augljóslega margt annað sem við ættum að vera að ræða hér. Það eru svo augljóslega margar aðrar leiðir til að útkljá þetta (Forseti hringir.) mál en með því að deila um það hér í þingsal. Ég vil hvetja hv. stjórnarþingmenn (Forseti hringir.) til að koma hér upp og ræða (Forseti hringir.) þessar aðfinnslur um fundarstjórn forseta sem við höfum sett fram, um allt þetta samráðsleysi og segja skoðun sína á því.