144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

rammaáætlun og gerð kjarasamninga.

[14:36]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni, það væri æskilegt að hér færu fleiri mál að komast á dagskrá, en það stendur algjörlega upp á stjórnarandstöðuna sem eyðir hér heilu dögunum (Gripið fram í.) í að ræða um fundarstjórn forseta, innihaldslausa umræðu þar sem menn koma skipulega upp tveir í senn til að halda sömu ræðurnar um fundarstjórn forseta. Það er ástæðan fyrir því að önnur mál komast ekki á dagskrá.

En hvað varðar tengsl orkuöflunar við kjarasamninga þá snúast þau fyrst og fremst um þörfina fyrir aukna verðmætasköpun. Ef innstæða á að geta orðið fyrir launahækkunum, þ.e. ef launahækkanir eiga að geta leitt til raunverulegrar kaupmáttaraukningar, raunverulegra kjarabóta, þurfum við að framleiða meiri verðmæti á Íslandi. Það hefur Alþýðusambandið líka bent á, af því að hv. þingmaður vísar til þess. Þó að Alþýðusambandið leggi áherslu á mikilvægi þess að halda sig við faglega vinnu við gerð rammaáætlunar, eins og hv. þingmaður bendir líka réttilega á, hefur Alþýðusambandið einmitt bent á að það var afrakstur faglegrar vinnu að þeir kostir sem hér eru til umræðu færu í nýtingarflokk. Þess vegna sendi Alþýðusambandið Alþingi ályktun árið 2012 og miðstjórn Alþýðusambandsins áréttaði það 2013 að það þyrfti í rauninni að laga mistök síðustu ríkisstjórnar, laga pólitískt inngrip síðustu ríkisstjórnar í rammaáætlun, með því að setja þessa kosti aftur í nýtingarflokk. Með öðrum orðum, hér er eingöngu verið að laga pólitískt inngrip síðustu ríkisstjórnar í rammaáætlun í samræmi við tilmæli Alþýðusambands Íslands á sínum tíma.