144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[15:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við sessunautarnir, ég og hv. þm. Guðbjartur Hannesson, stöldruðum greinilega við það sama hér áðan í máli hæstv. forsætisráðherra sem sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma að við hefðum sumarið fyrir okkur til að ljúka þingmálum. Það er náttúrlega í algerri andstöðu við það sem hæstv. forseti hefur sagt um að hér sé unnið samkvæmt starfsáætlun þingsins. Mig langar því að gera þá tillögu við hæstv. forseta að hann geri nú hlé á þingfundi meðan hæstv. forsætisráðherra er hér í húsi, þó svo hann sé ekki hér í salnum, eða í það minnsta ekki farinn neitt mjög langt og að hæstv. forseti og hæstv. forsætisráðherra komi sér saman um það hvers megi vænta í framhaldinu.