144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

viðvera forsætisráðherra í umræðu um rammaáætlun.

[15:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Stjórnarliðar hafa tekið til máls í pontu og kvartað undan því að hér fari ekki fram umræða um fundarstjórn forseta. Ég mótmæli því. Hér fer fram umræða um fundarstjórn forseta, dagskrána nánar tiltekið og allan þennan málatilbúnað. Til þess er þessi liður.

Aðeins um fundarstjórn forseta, þess forseta sem nú situr, sem nú er forseti þingsins. Þann 13. desember 2012 var lögð fram tillaga af hálfu hv. þm. Jóns Gunnarssonar um að virkja Urriðafossvirkjun, Hvammsvirkjun, Holtavirkjun, Skrokkölduvirkjun, þær sömu og hér eru til umræðu samkvæmt breytingartillögu sama hv. þingmanns í dag, ásamt Hágönguvirkjun. Með honum á þessari tillögu var einn annar hv. þingmaður og nú skal ég gefa vísbendingu. Sá hv. þingmaður er í dag einnig hv. 2. þm. Norðvest., Einar K. Guðfinnsson, núverandi virðulegur forseti þingsins.

Skiptir þetta engu máli? Væri þetta kallað hæfi undir einhverjum öðrum kringumstæðum? Ef við ætlum að ræða fundarstjórn forseta þá skulum við ræða (Forseti hringir.) hvort þetta fyrirkomulag sé yfir höfuð eðlilegt, hvort við getum haft sátt um dagskrána undir þessu verklagi.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.