144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér þykir kúnstugt að heyra hv. þingmenn meiri hlutans að koma hingað upp og gráta yfir umræðum um þetta mál. Það er eins og þeir átti sig ekki á því að Alþingi er málstofa og þar hefur stjórnarandstaðan ákveðnu hlutverki að gegna, sem er að veita eðlilegt aðhald. Þegar hv. þingmenn meiri hlutans leggja til að fara fram hjá lögbundnu ferli og eru með því, ef þessi tillaga verður samþykkt, að setja heilan lagabálk í uppnám og skapa gríðarlega hættulegt fordæmi fyrir framtíðina, fordæmi um það hvernig við á Alþingi Íslendinga umgöngumst lög og reglur, þá er það einfaldlega stórslys. Ef stjórnarandstaðan gerir ekki sitt til að stöðva slíkan framgang þá er stjórnarandstaðan að bregðast. Ég blæs nú bara á það þegar fólk kemur hingað upp og grætur yfir einhverjum fjölda ræðna. Við erum bara að sinna okkar hlutverki sem er að gæta þess að Alþingi Íslendinga haldi sig innan laga og reglna. Svo einfalt er það, frú forseti.