144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:59]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mundi þá jafnvel vilja beina spurningu til hv. þingmanns sem ég get kannski ekki, um það hvort eitthvað sem var gert á síðasta kjörtímabili sem hv. þingmanni fannst vera ófaglegt, réttlæti ófagleg vinnubrögð núna. Annaðhvort erum við sammála um að verkefnisstjórnin stýri þessu og setji kosti í nýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk eða ekki. Ef við erum ekki sammála um það og teljum að þingmenn geti bara vasast í þessu þá eigum við kannski að segja það eins og er og kannski bara taka þessi lög úr gildi eða eitthvað. Við fylgjum ekki því ferli sem við erum sammála um, að setja þetta í þann farveg sem tók langan tíma að byggja upp og við vonuðumst til að mundi nást sátt um.

Ég get svo sem ekki annað en lesið nefndarálit 1. minni hluta þar sem segir: „Tillaga meiri hlutans gengur í berhögg við lögin.“