144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við tökum nú aftur til við umræðu um breytingu á þingsályktunartillögu um rammaáætlun og ég vil spyrja hæstv. forseta um hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sem nokkuð ítrekað hefur verið óskað eftir í þessari umræðu. Það er ekki að ástæðulausu. Hæstv. ráðherra meldaði inn breytingartillögu við breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar sem átti að felast í því að taka út einn af þeim kostum sem voru á breytingartillögu atvinnuveganefndar, þ.e. Hagavatnsvirkjun. Við höfum í þinginu hvorki séð þessa tillögu né greinargerðina sem væntanlega er ætlað að fylgja tillögunni þannig að við höfum ekki séð röksemdir meiri hlutans fyrir því að taka þennan kost út úr breytingartillögu meiri hlutans. Það er giska forvitnilegt að fá að sjá þær röksemdir því að ef þær eru ekki nákvæmlega þær að það skorti vísindaleg rök veit ég ekki hverjar þær röksemdir eiga að vera.