144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:16]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er margítrekuð beiðni um að dagskrá verði breytt og að við förum að ræða önnur mál en þessa rammaáætlun enda liggur fyrir dagskrártillaga um að breyta röðuninni. Það er ekki seinna vænna af því að við erum í síðari umr. um þingsályktunartillögu. Ef ekki, þá er mjög mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra komi til umræðunnar eins og búið er að margítreka í allan dag.

Ég hef velt því fyrir mér eftir að hafa fylgst með umræðunni hjá hæstv. forsætisráðherra hvort það sé virkilega eðlilegt að hæstv. umhverfisráðherra leggi fram frumvarp, fari með það í gegnum ríkisstjórn með bara einum virkjunarkosti og síðan biðji forsætisráðherra atvinnuveganefnd um að bæta við tillögum. Af því má draga þá ályktun að það virðist vera alveg einhugur um að þessi tillaga komi fram, sé lögð fram af hv. þm. Jóni Gunnarssyni og að hér sé farin einhver bakdyraleið. Hvers vegna? Er það krafa frá atvinnulífinu eins og hér hefur verið sagt? Mér finnst margt mjög óljóst í þessu og því eðlilegt að við fáum að minnsta kosti betri (Forseti hringir.) skýringar áður en lengra er haldið í þessari umræðu.