144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:28]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hérna enn einu sinni upp til að syngja sama sönginn, að hvetja hæstv. forseta til að slíta þessum fundi og að hvetja meiri hluta atvinnuveganefndar til þess að hætta við þessa breytingartillögu, draga hana til baka, og halda áfram með málið eins og það var lagt upp í byrjun.

Hér hafa margir kallað eftir því að forsætisráðherra verði í salnum, hæstv forsætisráðherra komi hér í salinn og tjái sig um þessi mál. Ég er algjörlega á móti því og ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að eftir því sem hæstv. forsætisráðherra tjáir sig meira í fjölmiðlum, á flokksþingum (Gripið fram í.) eða í þingsal, því flóknari verður staðan. Alla vega á það við um þann þingmann sem hér stendur, ég skil hvorki upp né niður í hvað er að gerast. Þess vegna finnst mér það ekkert endilega málinu til framdráttar að hann sé í salnum á meðan við erum að ræða það, þótt ég hafi ekkert á móti honum persónulega.