144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:18]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra að við séum sammála um það. Það þýðir, ef ég skil hv. þingmann rétt, að rammaáætlun 2 er í gildi þangað til eftir fjögur ár þegar rammaáætlun 3 skilar fullnaðargögnum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hún gat komist að þeirri niðurstöðu að færa fjóra eða sex virkjunarkosti úr nýtingarflokki í bið, a.m.k. þrír af þeim skoruðu fullt hús stiga hjá verkefnisstjórninni, á meðan hún lét þá virkjunarkosti sem eru í friðlýstum fólkvangi á Reykjanesi og þær náttúruperlur sem þar eru eiga sig. Ég er aðeins búinn að kynna mér umsagnirnar, eins og kom fram hjá hv. þingmanni áður, og þær voru æðimargar þar sem (Forseti hringir.) ítrekað var bent á að þeir kostir skyldu vera áfram í nýtingarflokki, en (Forseti hringir.) þeir kostir sem skoruðu fullt hús voru færðir. Hvernig er hægt að rökstyðja það?