144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig hv. þingmanni tókst að túlka orð mín þannig. Nei, það sem ég var að benda á var einmitt að hv. þingmenn Svandís Svavarsdóttir og Össur Skarphéðinsson eru og voru í mismunandi flokkum. Það getur varla komið hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur á óvart að ráðherrar í mismunandi flokkum þurfi að komast að einhvers konar samkomulagi um það hvernig þeir halda áfram. Allar ríkisstjórnir virka þannig, það ætti ekki að koma hv. þingmanni á óvart.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur hins vegar efasemdir gagnvart þessum laxarökum og það er hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem skrifar bókina en þegar hann skrifar að það séu hin eða þessi rök gegn því að virkja í Þjórsá þá lætur hv. þm. Vigdís Hauksdóttir eins og þar séu á ferð orð einhvers frá Vinstri grænum, sem er einfaldlega ekki tilfellið.

Ég skil ekki hvernig hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kemst að þeirri niðurstöðu að rökin sem vinstri græn notuðu hafi verið einhvers konar óheilindi þegar þau eru lesin úr bók eftir hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég vona að það sé skýrt.