144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:03]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við göngum til atkvæða um dagskrártillögu sem borin er fram að gefnu tilefni. Um nokkurra daga skeið höfum við verið að ræða breytingu á þingsályktunartillögu um rammaáætlun þar sem fram hefur komið mjög ítarleg breytingartillaga frá meiri hluta atvinnuveganefndar og til viðbótar við hana breytingartillaga sem enn þá hefur ekki sést á þingskjali, hvorki tillagan sjálf né rökstuðningur við hana eða greinargerð, þannig að það er afar mikilvægt, virðulegur forseti, að ekki verði haldið áfram með umræðu um þetta dagskrármál fyrr en staða málsins í raun hefur verið leidd til lykta. Við teljum að ekki verði við annað unað en að breytingartillagan verði dregin til baka eins og hún leggur sig til að þingstörf geti haldið áfram með eðlilegum hætti og til að greiða fyrir þeim.

Ég legg til og mun greiða atkvæði með, sem og þingflokkur VG, breytingartillögunni (Forseti hringir.) við dagskrá og tel það afar mikilvægt í ljósi alvarlegra aðstæðna í samfélaginu.