144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að gefnu tilefni að lýsa yfir ánægju með málefnalega ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar um mikilvæg mál. Hann fór yfir þær hugmyndir sem hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson hefur viðrað og ef við ræðum þessi mál á þeim nótum munum við sjá bjartari tíma. Ég ætla ekki að fara efnislega yfir það sem hv. þingmaður sagði en vil vekja athygli á því að hér var málefnaleg og uppbyggileg ræða flutt.

Það sem ég ætlaði að ræða er mál sem ég hef miklar áhyggjur af. Það er einfaldlega að við settum af stað þann möguleika, sem er gríðarlega góður möguleiki, að menn geta nýtt séreignarsparnaðinn og farið í séreignarfyrirkomulagið til að greiða niður höfuðstól lána. Við erum með arfavitlaust húsnæðiskerfi sem hvetur fólk til að skulda, og við ræðum það kannski á eftir, en þetta fyrirkomulag hjálpar fólki að greiða niður skuldir sínar, greiða niður höfuðstólinn. Mér hefur fundist allt of lítið rætt um þennan möguleika, sömuleiðis þann möguleika fyrir fólk sem á íbúð að fara í húsnæðissparnaðinn og nýta þá góðu leið, gríðarlega hagkvæmu leið, til að kaupa sér húsnæði og greiða niður lánin. Það eru þess vegna ótrúlega mikil vonbrigði að sjá einstaka bankastofnanir misfara með þetta. Þær misfara með þetta með því að nýta þessar greiðslur inn á vexti. Það er algerlega óþolandi. (Gripið fram í: Er það ekki bara Íbúðalánasjóður?) Það er kaldhæðnislegt að það séu ríkisbankarnir, Íbúðalánasjóður og ég hef heyrt um Landsbankann líka, sem gerir þetta svona, nýta þetta í að greiða niður vexti og verðbætur. Í mínum huga eru verðbætur vextir. Og þetta er notað til að greiða inn á höfuðstólinn. Þetta er fullkomlega óþolandi og ég hvet þá aðila sem að málum koma til að kippa því í liðinn strax.