144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[16:51]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir fór yfir áðan er þessi röðun á hugsanlegum virkjunum í ferli. Því lýkur á næsta ári og væri hægt að taka málið til umræðu á löggjafarþinginu 2016–2017 í stað þess að rífa kosti út úr þessu lögbundna ferli og færa þá fram í tillögu sem við mörg hver efumst um að standist lög um rammaáætlun. Ég verð að segja að mér finnst algjörlega óviðunandi að ekki sé hlustað eftir þessum sjónarmiðum, sérstaklega í ljósi þess að í umræðu um þetta mál hefur það ítrekað komið fram að hv. þingmenn meiri hlutans átta sig ekki einu sinni á því í hvaða umræðu við erum stödd um málið. Hér kom fram í morgun að menn töldu að þetta ætti eftir að fara í 3. umr. Það vekur manni auðvitað réttmætar efasemdir um að menn gangi til þessa máls með bæði augun opin og átti sig algjörlega á þeim afleiðingum (Forseti hringir.) sem það getur haft ef áfram verður haldið með þessa umræðu og reynt að keyra þetta mál í afgreiðslu til að setja allt lagaumhverfið í algjört uppnám. Hvers konar fordæmi er það sem Alþingi Íslendinga er þá að gefa? Er einhver hissa á hvað fólk segir um virðingu þingsins? Það (Forseti hringir.) snýst ekki um að við séum að sinna því hlutverki sem okkur er ætlað, heldur að þingið er ekki að starfa samkvæmt eigin löggjöf.

(Forseti (SJS): Forseti biður hv. þingmenn að gæta að ræðutíma.)