144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Akkúrat, ég skil þetta eins. Ég get ekki skilið þessa greinargerð frá ráðherranum sjálfum öðruvísi en að þarna sé verið að segja að það vanti gögn og frekari upplýsingar til að hægt verði að taka afstöðu til Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar. Það er ekki með neinum rökum hægt að segja að faglegt mat hafi farið fram gagnvart þessu. Það hefur ekki farið fram.

Við hv. þingmaður sitjum nú saman í efnahags- og viðskiptanefnd og hann tæpti í ræðu sinni á hinu efnahagslega samhengi við þessar hugmyndir. Því var haldið fram af hæstv. forsætisráðherra að það væri nauðsynlegt að virkja til að auka hér verðmætasköpun. Ég er sammála hv. þingmanni, það eru fjölmargar aðrar leiðir sem eru svo augljósar núna í samfélaginu til að auka verðmætasköpun og því má reyndar halda fram að vandi samfélagsins væri frekar möguleg ofþensla. (Forseti hringir.) Hvernig sér hv. þingmaður að þessar virkjanir komi allar í einum rykk, ég tala nú ekki um ef þær eru löglausar líka, inn í efnahagsumhverfið? Eru þær nauðsynlegar á þessum tímapunkti?