144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er einmitt svo mikilvægt að muna bakgrunninn að því hvernig þetta var hérna, og sem betur fer hafa margir aðilar lært af sögunni. Á tímabili var eins og þetta væri eina lausnin á öllum vandamálum landsins og var ein af ástæðunum fyrir því að það fór í gang svona rosalega mikil bóla. Yfirleitt er ekki farið í svona miklar framkvæmdir á hagvaxtartímum eins og Kárahnjúkavirkjun var.

Ég veit ekki hvar hæstv. forsætisráðherra hefur fengið þessar hugmyndir og þess vegna er mjög bagalegt að hann hefur ekki verið hér í dag nema í örstutta stund og alls ekki til þess að svara fyrir neitt. Hann hefur ekki svarað fyrir það sem í raun og veru hefur komið fram að voru ósannindi af hans hálfu. En sjálfsagt mun hann túlka það sem svo að það sé verið að misskilja hæstv. ráðherra, eins og alltaf gerist þegar hann er hrakinn til baka með ósannindi. Það er mjög slæmt.

Þetta er eins og hæstv. forsætisráðherra hafi lent í einhvers konar skringilegri tímavél og hann sé fastur i einhverjum öðrum tíma, síðustu öld kannski, og er skringilegt að sjá svona unga manneskju vera þannig fasta. Ef hann væri meira hérna á þinginu með okkur þá er ég alveg viss um að við gætum hjálpað honum að komast inn í 21. öldina. En þetta er mjög undarlegt allt saman og mér er fyrirmunað skilja af hverju það er ákveðið að byrja að beita þessari leið til að þvinga málið sem við erum að fjalla um í gegnum þingið, sem er í raun og veru að það sé verið að taka af — má ég ekki bara bjóða þeim sem eru að kalla inn í sal, að koma inn í sal? — Það er verið að leysa í sundur rammann. Og það er mjög hættuleg vegferð, verð ég að segja.