144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er rétt að vera þakklátur yfir þessari umræðu sem staðið hefur lengi dags og hefur verið góð svo langt sem hún hefur þokast fyrir tækniatriðum sem koma upp inn á milli. En þegar mönnum liggur mikið á hjarta og margir vilja taka til máls vill fundartími náttúrlega lengjast, fylgir því óneitanlega. Þegar menn ráðast í að leggja í langa umræðu verða þeir að vera reiðubúnir að leggja á sig töluverðar fundarsetur meðan á umræðum stendur. Í amerískum málshætti stendur, sem ég las einhvern tímann, að sá sem þolir ekki hitann á að yfirgefa eldhúsið. Þess vegna er það að ef menn treysta sér ekki til að (Gripið fram í.) sitja hér langa stund og í góðum (Gripið fram í.) umræðum og góðum frammíköllum þá eiga menn náttúrlega bara að tempra ræðutímann.