144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra fór yfir hið nýja Íslandsmet sem búið er að slá hér í þessari umræðu um fundarstjórn forseta. Stjórnarandstaðan er að feta hér alveg nýjar brautir með því að ræða um fundarstjórn forseta meira að segja áður en þingfundur hefst. Það hefur aldrei gerst áður. (Gripið fram í.) Hér er rætt efnislega um rammaáætlun með dassi af fyrirlitningu á hæstv. forsætisráðherra. Þetta er algjört nýmæli, virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan er með svo mikið málæði [Kliður í þingsal.] undir þessum dagskrárlið að hún kemur ekki sinni eigin dagskrárbreytingartillögu ...

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í þingsalnum.)

... á dagskrá fundarins.

Virðulegi forseti. Það er orðið ógeðfellt hvernig stjórnarandstaðan stundar sitt málþóf og notar til þess öll meðul og kemur ekki einu sinni þingfundi af stað þar sem tillaga frá þeim er fyrsta dagskrármál fundarins.