144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er óskaplega dapurlegt að við skulum þurfa að taka svona mikinn tíma af þingstörfunum til að ræða um form málsins og ekki efni þess og um fundarstjórn. Hér hafa verið greidd atkvæði um það hvort málið ætti að fara út af dagskrá eða ekki. Það fékkst niðurstaða í það í gær og þá ætti málið að halda áfram í efnislegri umræðu.

Hér er sagt að vilji minni hlutans standi til þess að málið komi eins og það kom frá ráðherranum inn í þingið. Á síðasta kjörtímabili var vilji minni hlutans sá að málið yrði afgreitt út úr þinginu með nákvæmlega sama hætti og verkefnisstjórnin skilaði til ráðherrans. Það var nú ekki krafa sem hægt var að verða við á þeim tíma en þannig er málið í dag (Gripið fram í: Nei.) og nú vill meiri hluti nefndarinnar — þannig stendur málið í dag. (Gripið fram í: Nei.) Það stendur víst þannig í dag, (Gripið fram í.) nákvæmlega eins — hvernig stendur málið öðruvísi en (Forseti hringir.) þingið afgreiddi það á síðasta kjörtímabili? Auðvitað stendur málið eins og það var afgreitt á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í.) Nú ætlar minni hlutinn í salnum …

(Forseti (EKG): Hljóð í þingsalnum.)

Jæja, haldið þið bara áfram að tala, ég skal ekki trufla frekari ræðuhöld hér um fundarstjórn forseta. Gjörið svo vel, ræðustóllinn er ykkar.