144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er vandræðalegt að horfa upp á það að menn séu að kvarta undan því að ganga þurfi til atkvæða hér dag eftir dag. (Gripið fram í.) Það hefur líka komið fram í málatilbúnaði ríkisstjórnarflokkanna að þeir telja að kosningarnar 2013 hafi verið slík þáttaskil að atkvæðagreiðslur þurfi varla að eiga sér stað eftir þann mikla dýrðardag og að minni hlutinn hefði helst átt að pakka saman og hafa sig hægan eftir þau miklu þáttaskil.

Það endurspeglast hér aftur og aftur. Við greiddum atkvæði í gær og við greiddum atkvæði í fyrradag. Af hverju þurfum við að greiða atkvæði aftur? Af hverju þarf stjórnarandstaðan að tala og af hverju þarf hún að tala svona mikið? Af hverju þarf hún að tala svona og tala hinsegin? Þetta er orðið alveg óþolandi, lítilsvirðingin við lýðræðið og lítilsvirðingin við minni hlutann hér í þinginu.

Virðulegi forseti. Ég bið meiri hlutann að láta af þessu tali. Hér er verið að tala og leggja fram tillögur í skjóli gildandi þingskapa og (Forseti hringir.) það verður gert áfram. Það er réttur okkar (Forseti hringir.) og það eigum við að gera. Við höfum skyldur við Ísland, við kjósendur og við náttúru landsins, að beita þingsköpum í þágu þessa málstaðar. (Gripið fram í.)