144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég segi já við þessari tillögu vegna þess að ég vil fá að ræða hér skýrslu um vinnumarkaðinn eins og við hv. þingmenn minni hlutans höfðum óskað eftir. Ég vil gjarnan heyra bæði í hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hvernig þeir telji að Alþingi og framkvæmdarvaldið geti komið að lausn kjarasamninga áður en allt fer hérna í bál og brand.

Innlegg þessara tveggja hæstv. ráðherra hefur verið með ýmsum hætti. Það er kominn tími til að það fari fram lýðræðisleg umræða á þingi um þessi mál. Hæstv. fjármálaráðherra hefur gefið í skyn að það eigi að endurskoða verkfallsréttinn og hæstv. forsætisráðherra hefur talað á þann veg að þessi ólánstillaga um breytingu á rammaáætlun sé eitthvert innlegg í kjarasamningana. Við eigum að taka þessa umræðu hérna. Við skuldum þeim sem eru í alvarlegu verkfalli að það sé tekið alvarlega og rætt á þingi (Forseti hringir.) og okkur hleypt úr þessum álögum. (Forseti hringir.) Við erum undir álögum hv. þm. Jóns Gunnarssonar og (Forseti hringir.) í gíslingu með þetta mál.