144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

lengd þingfundar.

[12:19]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég greiði atkvæði gegn þessari tillögu vegna þess að menn ætla að halda því til streitu að ræða sniðgöngu stjórnarmeirihlutans á lögum hvað varðar rammaáætlun. Ef menn væru að fara að ræða það neyðarástand sem ríkir á sjúkrahúsum landsins vegna verkfalla, ef menn væru að fara ræða það að ferðaþjónustan lendir í miklum vanda vegna yfirstandandi verkfalla og vegna fyrirhugaðra verkfalla þá væri ég til í að standa hér og ræða við menn fram á nótt. En undir þessum kringumstæðum, virðulegi forseti, hefur það ekkert upp á sig að halda kvöldfund.

Það kemur fram í fréttum núna að stórir hópar erlendra ferðamanna eru farnir að afbóka ferðir til landsins. Það er fyrirséð að hætt verður að bóka þegar verkfall vofir yfir. Hvaða áhrif mun það hafa á stærsta atvinnuveg (Gripið fram í.) þjóðarinnar og þann mest vaxandi? Hvað leggur ríkisstjórnin til inn í þá vinnu að reyna að leysa þessa deilu? (Forseti hringir.) Við höfum lagt til að þingfundir verði lagðir undir umræður um þetta mál þar sem menn geta skipst á skoðunum og lagt fram tillögur. Því hefur verið hafnað. Þess vegna hafna ég kvöldfundi. (Gripið fram í.)