144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[12:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér hefur nú þegar eitthvað gengið á. Ég hef ekki orðið þess var en ég hef heldur ekki verið að fylgjast með því sem hér er kvartað undan hvað varðar bjölluna, ég hef bara ekki tekið eftir því, segi hvorki af né á um það. En hins vegar finnst mér alveg þess virði að mótmæla því sem einn hv. þingmaður í þingsal sagði um að þessi meinta aðdróttun væri ósæmileg. Við búum við þing þar sem virðulegur forseti, sem ég ber mikla virðingu fyrir, er enn fremur hv. 2. þm. Norðvest. fyrir Sjálfstæðisflokkinn og fyrrverandi hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Hann er í stjórnarliðinu og þegar það er þannig er ekkert skrýtið að menn velti fyrir sér og geri athugasemdir við það þegar þeir telja að virðulegur forseti sé með ríkisstjórninni í liði. Það væri fásinna að halda að þetta væri eitthvað öðruvísi, virðulegi forseti, með fullkominni virðingu. Eina leiðin til að komast hjá svona umtali er að forseti sé ekki hluti af ríkisstjórnarliðinu.