144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það kom náttúrlega í ljós í umræðunni í morgun og atkvæðagreiðslum að ríkisstjórnin óttast það að ræða kjaramálin og vill helst ekki koma að þeim. Á nýlegum fundi, sem undirstrikar hvers vegna við viljum hafa þetta mál á dagskrá, var verið að ræða stöðuna í samfélaginu, og það hafa fleiri aðilar gert, og að það sem hafi brugðist hér sé traustið. Það er athyglisvert að hæstv. forsætisráðherra hefur bent á að staðan í samningum sé kannski svona erfið vegna þess að nú sé eitthvað til skiptanna. Kannski er það rétt, en vandinn er hvernig á að skipta því. Þegar menn fóru að ræða traustið á fundum úti í bæ, t.d. í Iðnó, kom fram að traustið hafði brostið meðal annars út af hugmyndum um arðgreiðslur, út af svikum ríkisstjórnarinnar um framhald af kjarasamningum í desember 2013, samningum ríkisins til að mynda við einkageirann í sambandi við heilbrigðisstéttirnar og fleira og fleira hefur (Forseti hringir.) valdið vantrausti og óánægju í samfélaginu. Ramminn er svo enn einn hluturinn þar sem á að beita valdi og skilja eftir (Forseti hringir.) helminginn eða meira af þjóðinni. Það er það sem veldur deilum í samfélaginu og dregur okkur í dilka, gagnstætt því sem samfélagið þarf á að halda.