144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

markaðslausnir í sjávarútvegi.

[15:04]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Íslenskur sjávarútvegur er eina framleiðslugreinin á Íslandi sem stenst samanburð á heimsmarkaði í framleiðni. Sátt er í þjóðfélaginu um veiðigjöldin í greininni og við þurfum að byggja á þeim. Markaðslausnir í sjávarútvegi eru ekki sú lausn sem við þurfum á að halda; aukin samþjöppun mun verða sem mun leiða til þess að fjárfestingar í greininni munu hrynja, það mun hafa mikil áhrif á byggðir landsins þar sem stóru fyrirtækin verða stærri og þau verða færri og litlu sjávarplássin munu líða fyrir það.

Það sem er mikilvægast í sjávarútvegi og öllum greinum auðvitað er fyrirsjáanleiki. Kvótakerfið er auðvitað ekki gallalaust, vegna þess að segja má að framsalið sé mikilvægasti kostur kvótakerfisins en um leið er það kannski mikilvægustu gallarnir líka. En það er gríðarlega mikilvægt fyrir sjávarbyggðirnar, fyrir útveginn að geta byggt á fyrirsjáanleika, að geta byggt upp traust fyrirtæki sem skila arði til samfélagsins. Við höfum horft upp á þetta gerast á síðustu árum þar sem sjávarbyggðirnar hafa eflst og styrkst í námunda við þau öflugu fyrirtæki.

Það er því mikilvægt að þegar við veltum fyrir okkur hvernig við deilum þessum gæðum að greiðslan sé réttmæt fyrir þau og hún sé hófleg. En að deila fiski út á markað reglulega, það mun skapa glundroða, það mun skapa ófyrirsjáanleika í greininni sem mun veikja hana og mun veikja stöðu íslensks sjávarútvegs í landinu, sem er einhver sá sterkasti í heiminum eins og sakir standa.