144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ummæli sjávarútvegsráðherra og sameining skóla.

[15:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. síðasta ræðumanns hvað það varðar að við höfum kvartað mikið undan því hér að forseti hafi leyft þessum málum framhaldsskólanna að fara algjörlega fram hjá þinginu. Það er ekki annað hægt en að hæstv. menntamálaráðherra komi hingað og standi skil á þessu. Það er nú þegar búið að óska eftir umræðu og opnum fundi í allsherjar- og menntamálanefnd, en auðvitað verður hann að koma hingað og gera þinginu grein fyrir þessum ákvörðunum.

Virðulegi forseti. Ég spurði hér í morgun hvort einhver ráðherra hygðist taka að sér þennan málaflokk, umhverfismálin, og vera hér við umræðuna þangað til henni lyki, ef henni lýkur. Það hafa ekki borist svör við því. Ég gladdist svo í hjarta mínu þegar ég hélt að hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, yrði hér við umræðuna en hann er farinn úr húsi.

Mig langar að varpa þessari spurningu fram: Er einhver hæstv. ráðherra sem kemur til með að sinna (Forseti hringir.) þessum málaflokki í fjarveru umhverfisráðherra?