144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:40]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér finnst það gríðarlega ámælisvert ef það er rétt sem hefur komið fram, að hæstv. forseti hafi ekkert gert til þess að kalla saman þingflokksformenn og reyna að höggva eitthvað á þennan hnút um dagskrána og deilurnar um hana. Það er nokkuð ljóst að þessar deilur munu halda áfram nema leitað verði leiða til þess að sætta ólík sjónarmið og það er jafnframt ljóst að það gerist ekki nema hæstv. forseti boði til fundar. Eins og þetta lítur út núna er það því miður svolítið eins og hæstv. forseti sé á flótta undan þessari umræðu. Þess vegna vil ég enn og aftur hvetja til þess að þingflokksformenn og mögulega aðrir þingmenn setjist niður með kaffibolla og ræði málin og ræði sig að einhverri sátt.