144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir þessa spurningu. Ég tel hana mjög góða. Mín skoðun er sú að það sé gríðarlega mikilvægt að við förum að skoða það faglega hvers virði okkar einstöku náttúruperlur eru í sinni hreinustu mynd. Auðvitað þarf að vanda til verka þegar opna á viðkvæm svæði, gera aðgang að þeim auðveldari fyrir ferðamenn, en ég held hins vegar að það sé alveg hægt. Líkt og hv. þingmaður benti á þarf ekki rosalega langa vegarlagningu í þessu tilfelli þannig að kostnaður af því yrði kannski ekki svo mikill. Ég held að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að við förum í þá vinnu að reyna eins og best er hægt að leggja mat á það hvers virði það er að halda Urriðafossi og mörgum öðrum náttúruverðmætum ósnertum.

Þó svo að við njótum þeirra forréttinda í dag að hafa marga möguleika uppi þegar kemur að því að afla okkur tekna er ekkert víst að svo verði alltaf, eins og ég kom inn á í ræðu minni. Við verðum að skilja einhverja valkosti eftir fyrir komandi kynslóðir þannig að þær geti sjálfar lagt mat á það (Forseti hringir.) hvað best sé fyrir þær að gera þegar þar að kemur.