144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:23]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki alveg af hverju við erum hér með þingfund. Eru ekki báðir formenn þingflokka stjórnarflokkanna búnir að koma upp og lýsa því yfir að þær vilji setjast yfir málið og reyna að finna einhverja lausn? Hafa orð þeirra ekkert vægi? Hvernig væri, virðulegi forseti, að hæstv. forseti óskaði eftir því að forustumenn stjórnarflokkanna létu athafnir fylgja orðum og forseti gerði hlé á fundinum og gæfi mönnum færi á því að setjast yfir það sem stjórnarflokkarnir virðast vera að undirbúa að leggja til að verði gert? Hér standi ekki bara einn og einn þingmaður og hvað þá þingflokksformenn og segi að þeir vilji setjast niður og ræða málið með okkur á skynsamlegum nótum, en gera það svo ekki heldur halda bara áfram hér á fundi eins og enginn hafi sagt neitt eða engin merking hafi verið að baki orða þessara ágætu kvenna.

Virðulegi forseti. Ég legg þetta til og hvet líka til þess að menn noti tímann og fundi í atvinnuveganefnd með verkefnisstjórninni og reyni að fara yfir málið.