144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:40]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Málin eru í algjörum hnút og umræðan fer hvorki aftur á bak né áfram. Mér finnst við því miður vera að eyða tíma okkar til einskis. Við gætum verið að afgreiða mál sem sátt er um. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem hafa bent á það að boðað hefur verið til fundar í atvinnuveganefnd í fyrramálið. Ég ætla að leyfa mér að vera svo bjartsýn að binda vonir við að þar gerist eitthvað, að hægt verði að koma þessu máli eitthvað áfram.

Ég vil því, líkt og aðrir hv. þingmenn, hvetja hæstv. forseta til að fresta fundi og taka þetta mál í það minnsta af dagskrá þar til umræddur fundur í atvinnuveganefnd hefur verið haldinn.