144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[14:44]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill af þessu tilefni segja að það eru mörg þekkt tilvik um að þegar ekki hefur tekist að standa við starfsáætlun og starfsáætlun er ekki lengur í gildi er ekki búið að ljúka niðurstöðu um það nákvæmlega hvenær þinginu muni síðan ljúka. Forseti lítur á það sem verkefni sitt og annarra þingmanna, ekki síst forustumanna þingflokkanna, að reyna að ná betur utan um þetta mikla viðfangsefni okkar sem er annars vegar deilan um það stóra mál sem hér hefur verið á dagskrá upp á síðkastið og önnur þau úrlausnarefni sem bíða þingsins.

Forseti telur að við þessar aðstæður hafi hann ekki forsendur til að gefa út nákvæma tímasetningu um hvenær þinginu gæti lokið. Enginn yrði fegnari en forseti að geta haft þessar upplýsingar fyrir framan sig og þess vegna höfðar forseti til hv. þingmanna um að við reynum á næstu sólarhringum og sem fyrst í næstu viku að ná utan um þetta mál þannig að okkur sé ljóst með hvaða hætti störfum þingsins muni vinda fram á næstunni. Hluti af því er að komast að niðurstöðu um þetta stóra deiluefni sem við höfum verið að ræða hér, en önnur mál eru líka þar undir eins og öllum er kunnugt.