144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:25]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég gætti þess um helgina að hafa símann nálægt mér og stillti hann á hringingu. Það voru margir sem hringdu en enginn til þess að leysa stöðuna hér í þinginu, enginn frá meiri hlutanum. Ég var undrandi á því, ég verð segja það alveg eins og er. Ég bjóst við því að menn mundu eftir síðasta föstudag reyna eftir fremsta megni að finna einhvern flöt á því að leysa þingið úr þessari gíslingu, en svo var ekki.

Það er að verða afkáralegra með hverjum deginum sem líður að við séum föst í þessari klemmu sem er heimatilbúin. Meiri hlutinn og forseti þingsins önuðu út í hana með bæði augun opin hér fyrir tveimur vikum á meðan ástandið í þjóðfélaginu er eins og það er. Við eigum von á veigamiklum málum frá fjármálaráðherra um losun hafta. Það skiptir máli hvernig andrúmsloftið í þinginu verður þegar það kemur hér inn. Staðan á vinnumarkaði er grafalvarleg og verður sífellt alvarlegri. Það fyrsta sem hæstv. forsætisráðherra gerir þegar þessi umræða hefst um dagskrána á þinginu, (Forseti hringir.) áður en fyrsti ræðumaður (Forseti hringir.) kemur í stól er að standa upp og fara út úr salnum, (Forseti hringir.) vegna þess að hann hefur ekki áhuga á að heyra eina einustu ræðu, ekki neitt innlegg (Forseti hringir.) frá minni hlutanum í þinginu.