144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:19]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það eru ekki margir stjórnarþingmenn sem taka þátt í þessari umræðu hér, en þeir sem það gera eru algerlega veruleikafirrtir, fullkomlega veruleikafirrtir, að það sé stóra málið núna að fá einhverja mælingu á því hverjir styðja rammaáætlun og hverjir ekki innan stjórnarliðsins. Hvaða leikaraskap erum við stödd í? Það sem skiptir mestu máli núna er að menn taki á stóru málunum sem verið er að kalla eftir hér úti að við tökum á. Það eru lífskjaramálin.

Virðulegi forseti. Á miðnætti munu hjúkrunarfræðingar bætast í hóp þeirra sem eru í verkfalli. Það mun hafa þau áhrif að senda verður fólk heim af Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Það mun hafa þau áhrif að menn þurfa að loka skurðstofum. Það mun hafa þau áhrif á sjúkrastofnanir um landið að til dæmis 75% allra sjúkrarýma á Selfossi og í Vestmannaeyjum verður lokað. Finnst mönnum þetta allt í lagi?

Í síðustu viku vorum við, sem töluðum um og höfðum áhyggjur af því að hægja mundi á bókunum í ferðaþjónustu, þeim mundi fækka og þær stoppa og þar með hugsanlega hafa varanleg áhrif á ferðaþjónustuna í landinu, kölluð popúlistar og ég veit ekki (Forseti hringir.) hvað og hvað af hv. þm. Jóni Gunnarssyni úr þingsal. Þetta er allt saman að gerast, virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) hefur engan áhuga á því og engar áhyggjur og ekki (Forseti hringir.) stjórnarflokkarnir heldur.