144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:17]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Nú erum við í rauninni með eitthvert ferli sem við erum búin að ákveða og setja í lög, þ.e. rammaáætlun, og finna ákveðna leið til að meta virkjunarkosti. Eflaust verða aldrei allir sáttir en þetta er þó leið til að sætta sjónarmið þannig að þjóðin geti að minnsta kosti verið þokkalega sátt við ferlið. Þetta er væntanlega skásta leiðin, mundi ég halda, í ljósi þess að við erum með mál sem getur beinlínis klofið þjóðina. Þegar virkjunarkostir eru annars vegar þá hafa menn sterkar skoðanir og ekki að ástæðulausu.

Ég velti fyrir mér, ef við ætlum ekki að virða ferlið eins og hefur komið í ljós hér þar sem meiri hluti atvinnuveganefndar tók bara málið í fangið og kom með einhverjar tillögur þvert á það sem ferlið gerir ráð fyrir, hvort þeir sem eru ósáttir við ferlið og telja það ekki nógu gott hefðu ekki frekar átt að breyta lögunum. Hefði ekki verið betri leið og réttari að segja að þetta væri of flókið, tæki of langan tíma eða eitthvað? Þá hefði þetta verið eins og hvert annað mál sem kæmi hingað inn og fengi sínar þrjár umræður og þar fram eftir götunum. Það væri gaman að heyra hvað hv. þingmaður segir um það. Mér finnst eins og meiri hlutinn sé að fara kolranga leið.