144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður orðaði það ágætlega áðan að ef við færum út fyrir rammann þá færi allt í döðlur, það má kannski segja það að við séum svolítið eins og döðlur hérna þessa dagana.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þetta ferli og hvort hann sjái tilgang meiri hlutans í þessu þegar komið hefur í ljós að verkefnisstjórn fer að skila þessum kostum, 26 kostum, og flokka þá og verður tilbúin með þá flokkun eigi síðar en 1. september 2016. Það hefur komið í ljós að ef til dæmis Holtavirkjun mundi lenda í nýtingarflokki núna, við þessa afgreiðslu málsins, þá yrði aldrei farið út í framkvæmdir þar fyrr en í fyrsta lagi árið 2018. Sér hv. þingmaður, eins og ég og fleiri, tilgangsleysið í þessari hjáleið, nema það að menn ætli algjörlega að fara á svig við rammaáætlun og án alls rökstuðnings demba þessum kostum í nýtingu, eins og manni sýnist vera, og líka það að málaferli og annað gæti komið í kjölfarið? Nú er ljóst að 14 ára gamalt umhverfismat er á Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun svo að líkur benda til að fara þurfi í nýtt umhverfismat. Hversu brýnt sem menn telja það vera að ryðjast áfram utan rammans eru margir þættir til staðar sem menn komast ekki neitt fram hjá með. Telur hv. þingmaður ekki að skynsamlegt sé að vera innan rammans og forðast það að allt fari í döðlur hérna?