144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér skilst reyndar að einn af kostunum við þá framkvæmd sem er við kísilverksmiðju á Grundartanga sé einmitt hversu lítið hún þurfi af orku. Að því sögðu þá hreinlega þekki ég þá framkvæmd ekki mætavel, svo að ég segi alveg eins og er.

Almennt er ég hlynntur því að virkja vatn — það er með umhverfisvænni kostum til að framleiða rafmagn, enda er ég ekkert á móti vatnsaflsvirkjunum. Ég er miklu skeptískari, ef ég segi alveg eins og er, á jarðhita, vegna þess að það kemur í ljós að það er í fyrsta lagi ekki algjörlega endurnýjanlegt, alla vega ekki alltaf, og það leysir úr læðingi ýmis efni sem við viljum ekki að leysist úr læðingi, sem hafa gróðurhúsaáhrif o.s.frv. Þannig að ég er jákvæðari gagnvart vatnsaflsvirkjunum en nokkru öðru, held ég, alla vega hérlendis.

Það breytir því ekki að mér finnst ekki réttlætanlegt að Alþingi sé að fara með pólitískar spurningar inn í það sem á heima í faglegu ferli. Þess vegna finnst mér ekki við hæfi að við séum að ræða alla þessa kosti hér undir þessum kringumstæðum. Ef hv. atvinnuveganefnd mundi draga þessa kosti til baka í bili og taka þá upp seinna, eftir 3. áfanga rammaáætlunar, væri ég ekki að rífast svona mikið yfir þessu og þar á meðal um fundarstjórn forseta. Við erum hins vegar að rífast um það. Ef við tækjum bara Hvammsvirkjun fyrir sé ég ekki að þetta væri svona mikið mál.