144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kem enn og aftur hingað í ræðustól til að mótmæla fundarstjórn forseta og dagskrá þingsins eins og hún liggur fyrir. Líkt og hefur mátt heyra í þessum sal, frá kliðnum sem berst að utan, eru fleiri en hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar ósáttir við dagskrá Alþingis. Mótmælendur byrjuðu að safnast saman fyrir meira en tveimur klukkutímum og ef við sem erum hér inni ætlum ekki að hlusta á raddir fólksins sem hingað kemur og safnast saman, þá veit ég eiginlega ekki til hvers við erum í vinnunni. Við erum kjörnir fulltrúar, m.a. þess fólks sem stendur fyrir utan, og að sjálfsögðu eigum við að hlusta á kröfur þeirra. Krafa þeirra er meðal annars sú að kjaramálin, sem eru auðvitað í upplausn þessa dagana, verði sett á dagskrá.