144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur hafnríkja til að uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar.

451. mál
[10:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég átti þess því miður ekki kost að vera við alla umfjöllun utanríkismálanefndar um málið en styð það fullkomlega. Mér virðist að málið sé þannig vaxið að það styrki stöðu okkar gagnvart sjóræningjaveiðum til dæmis á Reykjaneshryggnum. Ég minnist þess, af því að það er þessi hæstv. forseti sem nú situr hér bak mér, að þegar hann sat í stóli sjávarútvegsráðherra sýndi hann mjög vaska afstöðu gagnvart þeim sem þar fóru með rangindum á hendur Íslendingum og stálu þar fiski, en þetta er háttsemi sem enn er við lýði og enn í dag sætum við búsifjum vegna þessa.

Mig langar þess vegna til að spyrja hv. þingmann hvort hér sé ekki komið sterkara vopn en ella. Skil ég það ekki rétt að þessi samningur gefur okkur beittari klær til að krafsa gagnvart slíku? Eins og hv. þingmaður veit eru þar líka stórveldi sem hafa ekki hagað sér eins og best væri á kosið í bakgarði okkar þarna. Telur þá ekki hv. formaður utanríkismálanefndar að eftir að Íslendingar hafa með þessum hætti sýnt afstöðu sína, að þingið hefur veitt heimild til að fullgilda samninginn, þá sé rétt að við beitum að minnsta kosti þeim anda sem í honum er til að freista þess að hrinda af höndum okkar þessum, mér liggur við að segja sjóræningjum sem eru þarna alveg uppi í íslenskri efnahagslögsögu og gerum það hið fyrsta?