144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur hafnríkja til að uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar.

451. mál
[10:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni, formanni utanríkismálanefndar, fyrir prýðilegt svar. Það kann að vera rétt að þessi samningur færi okkur ekki ný vopn í hendur til að takast á við sjóræningjaskip, en ég orðaði það þannig, þ.e. í anda þessa samnings. Fyrst við erum á þeim tímamótum að samþykkja heimildir ríkisstjórnarinnar til að fullgilda hann þá tel ég kannski að við mættum reka af okkur slyðruorðið og notfæra okkur andann sem í þessu er til að skoða málin upp á nýtt.

Eftir því sem ég best veit hefur það verið þannig að þeir sem hafa stundað það sem ég hika ekki við að kalla veiðiþjófnað — þetta eru stofnar sem erlendar þjóðir langt að komnar sækja í og eiga sannarlega enga hlutdeild í eins og karfastofnana sem þarna halda til, við verðlaunum þessar þjóðir með því að selja þeim vistir, veita þeim skjól, sem við mundum alltaf gera, selja þeim olíu í okkar höfnum af því að Íslendingar hafa af því tekjur, en þær eru samt að stela frá okkur útsæðinu. Þess vegna finnst mér að við þurfum að taka fastar á því og við höfum reyndar rætt það. En telur ekki hv. þingmaður og formaður utanríkismálanefndar að við þessi tímamót mætti kannski fá hæstv. utanríkisráðherra, sem við sjáum allt of sjaldan, í okkar góðu nefnd og ræða þessi mál við hann?

Málið er líka það, ef ég man rétt skortir enn þá töluvert upp á að samningurinn taki gildi á alþjóðavísu vegna þess að ekki eru nógu mörg ríki búin að fullgilda hann. Ég man ekki tölurnar, ég held að við séum kannski 12. eða 13. ríkið, eitthvað svoleiðis. Þurfum við ekki sem fiskveiðiþjóð að ræða það?