144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur hafnríkja til að uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar.

451. mál
[10:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég fagna því sérstaklega að við erum að ljúka því að samþykkja heimild til ríkisstjórnarinnar til þess að fullgilda þennan samning. Þetta er samningur sem skiptir sjávarútvegsríki eins og Ísland miklu máli. Í sögulegu tilliti má segja að við eigum töluvert mikið í þessum samningi. Ef maður skoðar sögu hans er hann í reynd afleggjari af úthafsveiðisamningnum sem sennilega var samþykktur árið 1996 og hann aftur á móti varð til upp úr umræðu sem Íslendingar, ekki síst, stóðu fyrir á hinni frægu Ríó-ráðstefnu á sínum tíma 1992. Þá var Ísland í hópi ríkja sem beittu sér sérstaklega fyrir sjálfbærum sjávarútvegi, lagði Ísland áherslu á að það yrði með einhverjum hætti gripið til ráðstafana til þess að draga úr sókn í bæði flökkustofna og víðförula stofna, þ.e. stofna sem höfðu festi bæði innan og utan lögsagna ýmissa ríkja. Á þessum tíma fór ýmislegt saman, í fyrsta lagi dvínandi stofnar innan efnahagslögsögu margra ríkja, aukin tækni og vannýttur skipastóll sem leiddi til þess að það var stóraukin sókn í þessa stofna. Það var að framsýni Íslendinga og ýmissa strandríkja sem efnt var til viðræðna sem leiddu svo til úthafsveiðiráðstefnunnar sem aftur leiddi til samningsins, að mig minnir 1996. Í honum eða meðfram honum var rætt um nauðsyn þess að geta gert samning af því tagi sem við erum að staðfesta núna. Hann er mjög góður og veitir okkur ýmiss konar bjargir til þess að fara gegn þeim sem með rangindum stunda veiðar á stofnum sem þeir eiga ekki tilkall til.

Það er hins vegar ljóður á ráði þessa samnings, sem alla vega var lokið 2006 og við Íslendingar ásamt fulltrúum átta annarra þjóða, einmitt þegar ég var utanríkisráðherra, skrifuðum undir hann í Róm, að síðan hefur lítið gerst varðandi hann. Þá voru það níu ríki sem rituðu undir hann og rétt að rifja upp að Ísland var í svokölluðum kjarnahópi strandríkja sem undirbjuggu þennan samning, þannig að skylt er skeggið hökunni í því efni, en samningurinn þarf hins vegar að fá fullgildingu 25 ríkja til þess að hann taki gildi. Síðan við rituðum undir hafa ekki mörg ríki til viðbótar fullgilt, þ.e. mér telst svo til að með Íslendingum séu ríkin orðin 12, kannski þó ekki nema 11, en það þarf 25 til þess að hann taki gildi.

Þá er ég þeirrar skoðunar að við þessi sérstöku tímamót sé tvennt sem Íslendingar eigi að gera, og tímamótin felast þá í því að við erum hér að veita heimild til staðfestingar af okkar hálfu formlega til ríkisstjórnarinnar. Þessir tveir þættir felast í því í fyrsta lagi að ég tel að við í utanríkismálanefnd eigum að fá til fundar við okkur utanríkisráðuneytið, ég stakk upp á utanríkisráðherra, til þess að ræða það hvernig við getum a.m.k. beitt anda þessara laga gagnvart þeim sem hafa verið að veiða alveg upp í efnahagslögsögunni, dansa á henni, og eins og hæstv. forseti veit, stundum inn fyrir hana. Á þessum síðustu árum finnst mér að við höfum kannski ekki alveg staðið nægilega vel á verðinum. Þetta er nauðsynlegt.

Hv. formaður utanríkismálanefndar hefur í þessari umræðu sagt á móti að hann telji kannski ekki síðra að fá til fundar hæstv. landbúnaðar- og sjávarúvegsráðherra. Ég tek undir það. Af þeim tveimur, miðað við reynslu nefndarinnar af þeim, tel ég að sá maður yrði ekki síðri til þess að koma málum Íslands fram, svo það sé sagt algjörlega skýrt. Þannig að ég mælist til þess að utanríkismálanefndin ræði það mál við ráðherrana.

Það er annað sem ég tel líka að við þurfum að ræða við þessa ágætu ráðherra tvo. Eins og ég sagði áðan vantar verulega upp á að nægilega mörg ríki fullgildi þennan samning til þess að hann taki gildi. Ég hef líka rakið það að Íslendingar eiga með vissum hætti part af frumburðarréttinum gagnvart þeim samningi. Ég tel líka að Ísland sé í hópi þeirra ríkja sem hafa verulegan hag af því að umferð á úthafinu sé þannig að þar fari menn ekki um rænandi og ruplandi.

Þess vegna er mikilvægt að það sé ríki eins og Ísland sem tekur frumkvæði að því að fá til stuðnings við samninginn fleiri ríki. Það er seinna atriðið sem ég tel að utanríkismálanefnd eigi að ræða við þá tvo hæstv. ráðherra sem hafa verið nefndir, utanríkis- og sjávarútvegsráðherra; hvernig hyggst Ísland og getur beitt sér fyrir því að fleiri ríki fullgildi samninginn á þann hátt sem við erum hér að gera? Þetta er mál sem beinlínis varðar hagsmuni Íslands. Tímamótin eru þau að við erum að gera þetta formlega og þá er eðlilegt að við notum þau tímamót til að skoða hvernig við getum styrkt samninginn og þar með styrkt okkar eigin hagsmuni og hvernig við getum líka notað ýmisleg efnisleg ákvæði í honum sem vissulega, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson hefur bent á, eru nú þegar sitruð inn í ýmiss konar annan rétt á Íslandi. En við eigum samt að nota þetta til að skoða hvernig getum við betur varið hlut Íslands gagnvart þeim sem eru að djöflast í okkur á vetri hverjum suður á Reykjaneshrygg og stela frá okkur fiski.