144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[15:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Bara til þess að ég skilji þetta örugglega alveg réttum skilningi: Ef rétthafar eru þekktir, allir utan einn, er verkið væntanlega ekki munaðarlaust, svo notuð séu sú orðanotkun úr málinu sjálfu, en þó er í hópnum einn óþekktur rétthafi og ef allir rétthafarnir utan hann hafa fallist á afritun eða samþykkt hana, tekur þá tilskipunin ekki á því að hægt sé að afrita það án samþykkis þessa eina aðila sem ekki hefur verið auðkenndur? Og hvernig, ef ekki er hægt að nota hana til þess, leysa menn þá úr slíkum málum? Segjum að þeir ætli að gera útvarpsleikrit þar sem er höfundur að leikritinu, rétthafar að upptökunni, að þýðingunni, að hverjum einstökum leikara, jafnvel erfingjar einhverra leikaranna sem upphaflega fluttu það, rétthafar að tónlistarflutningnum o.s.frv. og allir hafa fallist á afritun, en einn þeirra verður ekki staðsettur eða er óþekktur, er ekki hægt að nota tilskipunina til þess að leysa úr því?

Síðan er það heimildin hér fyrir þessa aðila til að afrita þetta stafrænt, er ekki fyrir hendi heimild til að miðla þeim afritum þegar þau hafa verið tekin, eru þetta aðeins afrit í geymslurnar sem heimildin er fyrir?