144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

störf þingsins.

[10:30]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson virtist hafa töluvert mikið út á fundarstjórn forseta að setja á síðasta kjörtímabili þegar hann kom 215 sinnum í ræðustól til að ræða um fundarstjórn, þannig að talandi um misnotkun á því fyrirbæri þá þurfa menn kannski eitthvað að líta í eigin barm. En batnandi mönnum er best að lifa.

Virðulegi forseti. Þann 19. maí síðastliðinn óskuðum við í þingflokki Samfylkingarinnar og síðan stjórnarandstaðan eftir því að munnleg skýrsla yrði gefin hér um stöðuna á vinnumarkaði af hæstv. forsætisráðherra. Ég vil spyrja hvers vegna ekki hefur verið orðið við því. Ég veit ekki til þess að okkur hafi heldur verið svarað um það hvenær og hvort þeirri beiðni verður svarað og hvort við henni verði orðið. Ég tel mjög mikilvægt að við förum að ræða þessi mál hérna inni. Þó að samningar séu að nást á hinum almenna markaði eru enn þá deilur milli ríkisins og opinberra starfsmanna. Sömuleiðis heyrum við af því að ríkisstjórnin sé núna að hugsa um að snúa af þeirri braut að horfa á skattkerfið sem tekjujöfnunartæki og fara að taka miðþrepið út. Það væri þess vegna mikilvægt að við fengjum að eiga hér samtal um þetta allt saman. Ef ekki núna, hvenær þá, að forsætisráðherra léti nú svo lítið að koma hingað í þingsal og eiga við okkur þingmenn samtal um þessi stærstu mál sem á döfinni eru?

Ég hef áhyggjur af þeirri þróun ef menn ætla að fara að fækka skattþrepum og hverfa frá þeirri stefnu að nýta skattkerfið sem tekjujöfnunartæki, ekki síst í ljósi þeirra orða sem komið hafa fram meðal annars hjá OECD þar sem þeir settu fram í skýrslu sinni í desember síðastliðnum þá afstöðu að hagkerfi heimsins í hinum vestræna heimi væru öflugri ef ekki væri fyrir svona (Forseti hringir.) mikla misskiptingu sem einkennir (Forseti hringir.) þau eins og t.d. í Bretlandi. Við ætlum ekki að hlusta á þau viðvörunarorð, heldur ætlum (Forseti hringir.) við að keyra inn á braut hægri stefnunnar og frjálshyggjunnar aftur. Ég hef áhyggjur af því.