144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

starfsáætlun.

[11:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi vekja athygli á því að í dag er sá dagur kominn að starfsáætlun Alþingis er runnin út og það er engin önnur starfsáætlun í gildi. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur þingmenn að það sé regla á þingstörfum og að við vitum með hvaða hætti við nálgumst þau mál sem hér er við að glíma. Ég tel nauðsynlegt að við öll hér, 63, séum samstiga um það með hvaða hætti þingstörfum eigi fram að vinda. Ég hlýt að kalla eftir því að einhver önnur áætlun sé sett fram um starf þingsins. Hæstv. forsætisráðherra sem nú var að ganga á dyr hefur haft um það betri ræður en flestir aðrir í þinginu hversu mikilvægt það sé að þing starfi ekki að starfsáætlun lokinni nema það sé einhver almenn lína um það af hálfu stjórnarmeirihlutans, forustu þingsins og allra flokka á þinginu og ég hlýt að kalla eftir því að sú staða verði skýrð.