144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[13:07]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði mjög vel á ræðu hv. þingmanns og ég hélt að ég hefði komið því mjög skilmerkilega til skila að þingmaðurinn hefði stutt ríkisstjórnina á þeim tíma en ekki tiltekið verkefni, en það hefur kannski eitthvað skolast til, látum það liggja milli hluta.

Ég vil svo segja í ljósi þess að okkur hefur ekki tekist síðustu ár, hvorki í tíð núverandi ríkisstjórnar né síðustu, að leggja fram hina skemmri samgönguáætlun að þá ætti maður kannski bara að fagna því að hún sé þó komin inn til þingsins og til samgöngunefndar. Ég vísa á bug öllu um að þetta sé vanvirðing við nefndina. Nefndin hefur verið mjög sjálfstæð í sínum störfum. Ég á ekki von á öðru en að hún verði það áfram.