144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

aðgerðir í þágu bótaþega.

[10:36]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Mikið er þetta sérkennileg nálgun, að það sé núna orðið áhyggjuefni hvað laun hafa hækkað mikið og séu að fara að hækka mikið. Hv. þingmaður hlýtur að átta sig á því að í þessum aðgerðum eins og öllum öðrum aðgerðum eru menn að reyna að nálgast ákveðna hópa á þann hátt að það skili sem mestu til þeirra. Það er þar af leiðandi ekki skynsamlegt að ætla með einni og sömu aðgerðinni að leysa öll vandamál heimsins. Nei, það gera menn með því að finna lausnir í hverju tilviki fyrir sig og þar hefur þessi ríkisstjórn skilað þeim árangri að hv. þingmaður á ekki að þurfa að bregðast við með þessum hætti. Þessi ríkisstjórn hefur til að mynda ráðist í allar þær aðgerðir sem boðaðar voru í skuldamálum heimilanna og afnumið allar þær skerðingar sem síðasta ríkisstjórn innleiddi á öryrkja og eldri borgara. Gríðarlegar skerðingar frá árinu 2009 voru allar afnumdar. (Forseti hringir.)

Það er rétt að kjör þessa fólks mega svo sannarlega batna og við getum (Forseti hringir.) vonandi unnið áfram að því.