144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lengd þingfundar.

[11:17]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa gagnrýnt það að við tökum hlutina í rangri forgangsröð. Því get ég ekki stutt kvöldfund nema að því tilskildu að þegar við ræðum hið mjög svo umdeilda mál sem kemur verulega á óvart að sé sett hér á dagskrá, Stjórnarráðið, verði forsætisráðherra hér og taki fullan þátt í þeim umræðum, sama hversu lengi þær standa. Ég geri ráð fyrir því að þær umræður haldi áfram svo lengi sem meiri hlutinn ákveður að við eigum að vera hér í kvöld.

Ég tek líka undir áhyggjur af því að ekki sé starfsáætlun í gildi og ekki nægilegur tími til að fara yfir mál í nefndum. Ég hefði til dæmis talið farsælt að hafa nefndafundi í kvöld. Ég vona að það komi eitthvað út úr þessum fundi með formönnum og þakka forseta fyrir að hafa komið þeim fundi á.