144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[18:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég gerði það að umtalsefni í morgun, undir þessum lið um fundarstjórn forseta, að mér þætti hlutirnir teknir fyrir í vitlausri röð. Við byrjuðum á því að greiða atkvæði um lengd fundar og svo var ákveðið að hafa fund formanna síðar á dagskránni. Ég taldi eðlilegast að byrjað yrði á formannafundinum.

Þegar þessi atkvæðagreiðsla, um lengd þingfundarins, fór fram var nokkuð þétt setið í salnum og hv. þingmenn og ráðherrar stjórnarmeirihlutans greiddu atkvæði um að haldinn skyldi ótímabundinn kvöldfundur.

Þegar ég bað um orðið núna var einn hv. þingmaður meiri hlutans hér í salnum. Þeim hefur nú fjölgað og eru þrír auk hæstv. forseta. Ég spyr: Ætlum við að fara inn í kvöldið, (Forseti hringir.) nú er klukkan rúmlega sex, stjórnarandstaðan að tala við sjálfa sig? Væri ekki nær, hæstv. forseti, að slíta fundinum?