144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[18:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Ég skal gera mitt besta í því, virðulegur forseti. Þetta þarf ekki að vera neitt óskaplega flókið. Staðan er sú að við erum með nokkur mál, kippu af málum sem eru dagsetningarmál og þingið þarf að afgreiða. Það þarf að afgreiða hérna heimildir til að leggja á veiðigjöld á næsta ári, annars verður ríkið af tekjum. Sjávarútvegsráðherra þarf heimildir til að ráðstafa veiðiheimildum úr pottum. Samgönguráðherra þarf helst samgönguáætlun og fjármálaráðherra ríkisfjármálaáætlun. Síðan eru önnur mál sem búið er að leggja mikla vinnu í, bíða tilbúin með sameiginlegum nefndarálitum og snúast einfaldlega um að bjarga uppskeru í hús og vinnu sem annars verður ónýt. Í þriðja lagi eru svo umdeild mál, lítt unnin eða flókin mál sem mundu bíða sér til bóta og skiptir ekki sköpum hvort verða afgreidd í byrjun eða lok sumars, í júní eða september. Í fjórða lagi gætu verið á leiðinni inn einhver ný mál.

Það þarf að vinna svona greiningu á þessu ástandi, þrátt fyrir hina reynslulausu formenn stjórnarflokkanna. Ég hvet forseta til þess að fara í þetta verk. Þá er þetta ekkert óskaplega flókið, en að einhverjir frekjukallar komi hingað (Forseti hringir.) inn mörgum dögum eftir að starfsáætlun er útrunnin og heimti allt, það gengur bara ekki þannig fyrir sig.