144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[21:53]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Mig langar aðeins að eiga orðastað við hann um nokkra hluti. Hann talaði meðal annars um strandveiðarnar, hvað þær hefðu gert fyrir minni báta. Ég get tekið undir það með honum að það væri vert að huga að því hvort ástæða væri til að bæta þar í upp að einhverju hámarki. Ég tel að það geti enn frekar stuðlað að nýliðun í greininni, í þessari smábátaútgerð, frekar en ef þetta væri ekki.

Ég þekki það heiman að frá mér að líf hefur aukist í sjávarbyggðunum og ferðamennirnir hafa gaman af því að fylgjast með þegar bátar koma að landi og verið er að gera að. Ég held því að við getum verið ánægð með að hafa komið þessu á. Eins og hv. þingmaður nefndi þá er komið ákveðið jafnvægi í veiðarnar. Þær byrjuðu svolítið með trukki og dýfu en með því að kerfið var bætt þá hefur það lagast svolítið.

Hv. þingmaður nefndi makrílinn í lok máls síns og mig langaði að spyrja hann aðeins út í það. Í frumvarpinu, sem hefur legið frammi og verið til umræðu, í hinu svokallaða makrílfrumvarpi, var verið að tala um framsal, þar var verið að tala um kvótasetningu, þó að hæstv. ráðherra vildi kannski ekki kannast við það. Þessi úthlutun til sex ára sem framlengdist ár hvert — hvort hv. þingmanni finnist það ekki undarlegt í ljósi þess að hér er lagt til, sem ég er reyndar mjög hlynnt, að 30 tonna bátar hafi færi á að leigja afla og hann er ekki framseljanlegur. Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji ekki að þetta stangist á, þessi tvö mál sem hér eru til umfjöllunar.