144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á þjóðaratkvæðagreiðslur og auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem hljómaði eins og tónlist í mínum eyrum. Ég er sammála hv. þingmanni að því er mér sýnist að öllu leyti. Ég er samt að velta fyrir mér einu sem mér finnst stundum ekki alveg vera skýrt í umræðunni þegar kemur að auðlindaákvæði í stjórnarskránni. Nú er yfirleitt krafan sú að í stjórnarskrá eigi að vera ákvæði sem kveði á um að auðlindirnar séu í þjóðareign. En ég fór á einhverjum tímapunkti að taka eftir að margir stjórnarliðar sem eru þó hlynntir kvótakerfinu í núverandi mynd þótti það bara allt í lagi.

Að mínu mati er lykilatriði að það sé ekki bara auðlindin sjálf sem sé í þjóðareign heldur einnig að réttindi tengd nýtingu hennar myndi ekki varanlegan eignarrétt. Þetta er eitthvað sem kemur fram í 34. gr. frumvarps stjórnlagaráðs sem snýr að stjórnarskrá. Þar held ég að liggi aðalatriðið á bak við það hvernig auðlindaákvæðið ætti að vera til lengri tíma. Það er ekki bara um að ræða auðlindina heldur líka kvótann, eða eins og það er kallað í fyrrnefndu frumvarpi, réttindi tengd auðlindinni. Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður sjái þennan aðskilnað milli annars vegar kvótans og hins vegar auðlindarinnar sjálfrar. Að mínu mati er þetta ekki alveg það sama.

Ef einhver getur haft eignarrétt á kvótanum þá skiptir í sjálfu sér ekki endilega miklu máli að auðlindin sé í þjóðareign Margir lögspekingar sem ég hef talað við segja að það sé þýðingarlaust að setja auðlindina sjálfa í þjóðareign. Það að setja hins vegar kvótann undir það skilyrði að hann myndi ekki varanlegan eignarrétt gæti (Forseti hringir.) verið það sem við erum að leita að. Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmanni finnst um það.